Fyrsti tíminn hjá sálfræðingi
- Kvíðaklíníkin
- Jun 23, 2024
- 2 min read
Updated: Jul 11, 2024
Fyrir marga getur verið stórt skref að fara í fyrsta skipti til sálfræðings. Þess vegna vildum við taka saman nokkra punkta sem gott er að hafa í huga í byrjun meðferðar.
Til að meðferðin verði árangursrík er mikilvægt að þekkja vandann vel áður en hafist er handa. Þess vegna notum við fyrstu tímana til að kynnast þér og þinni sögu ásamt því að greina og kortleggja vandann.
Áður en þú kemur í fyrsta viðtal færð þú spurningalista til að fylla út. Þennan spurningalista notum við til að fá gott yfirlit yfir þín einkenni en líka til að flýta fyrir svo að við komumst fljótar að kjarna málsins.
Þú þarft ekki að undirbúa þig eða vita nákvæmlega hver vandinn er eða hvað þú ætlar að tala um í fyrsta viðtalinu. Við hjálpum þér að finna út úr því hver vandinn er.
Í þessum fyrstu tímum spyrjum við margra spurninga og leggjum fyrir spurningalista til að skima fyrir einkennum. Einnig notum við matslista til að mæla alvarleika vandans svo að við getum fylgst með því hvernig gengur að vinna með vandann.
Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að tala um erfiða hluti við nýja manneskju og það er eðlilegt að það taki á. Það er líka mjög eðlilegt að gráta, það er bara ein leið líkamans til að fást við tilfinningar og það er einmitt það sem við við erum að gera í sálfræðimeðferð.
Það er mjög hjálplegt að þú segir sálfræðingnum þínum frá því ef það er eitthvað sem þér finnst erfitt að tala um sem þú vilt bíða aðeins með að ræða. Þá er hægt að ræða það síðar þegar meira traust hefur myndast.
Það eru engar spurningar asnalegar, ef þér finnst eitthvað óljóst eða ef þú ert að velta einhverju fyrir þér er velkomið að spyrja.


